Eignir Íslendinga og félaga í þeirra eigu sem lögreglan í Lúxemborg hefur fryst eru að andvirði „meira en milljarður króna“. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfesti þá upphæð en kvaðst ekki geta gefið neinar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Þegar spurt var hvort upphæði sé lægri en tíu milljarðar vildi Ólafur ekki svara því. Ekki fást heldur upplýsingar um hverjir eiga hlut að máli, hvort það eru fyrrverandi starfsmenn eða viðskiptavinir Kaupþings í Lúxemborg, né heldur hve marga málið snertir. Málið er á viðkvæmu stigi og í miðju ferli og ekki hægt að gefa upplýsingar vegna rannsóknarhagsmuna.
Íslensk stjórnvöld eru í samstarfi við stjórnvöld í Lúxemborg vegna málsins. Ólafur sagði að frekari upplýsingar yrðu ekki veittar fyrr en fengist hefur botn í málið. Hann sagði að aðilar málsins hafi ekki fengið miklar upplýsingar um málið og eðlilegt að þær berist þeim öðruvísi en í gegnum fjölmiðla.