Stjórnarskráin skiptir verulegu máli og mannréttindakafli hennar er sá
mikilvægasti, neitunarvalda forseta er mikilvægt öryggistæki í stjórnkerfi landsins, auðlindir skulu vera í eigu þjóðarinnar og hætta á sjálfkrafa skráningu í trúfélög. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu með niðurstöðum af þingi ungmennaráða sem haldið var undir merkjunum Stjórnlaga unga fólksins.
Það eru UNICEF á Íslandi, umboðsmaður barna og Reykjavíkurborg sem
standa að Stjórnlögum unga fólksins. Verkefnið miðar að því að tryggja að skoðanir barna og ungmenna fái að heyrast og séu teknar til greina við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Var skýrsla með niðurstöðunum afhent formanni stjórnlagaráðs, Salvöru Nordal, á táknrænan hátt við styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli í hádeginu í gær.
Ítrekað kom fram í máli ungmennanna að þau teldu sig heppin að búa á Íslandi. Hér væru skilyrði barna og ungmenna betri en í flestum öðrum löndum og mannréttindi þeirra væru virt. Lýðræðislegt stjórnarfar væri mikils virði og að því yrði að hlúa.
Þá var ungmennunum annt um fagmennsku stjórnmálamanna. Fagleg sjónarmið yrðu að ráða við skipan ráðherra og vinskapur, flokkspólitískar ástæður og klíkuskapur mættu ekki liggja á bak við skipan þeirra.
Einnig fannst þeim að samræma þyrfti kosningaaldur, sjálfræðisaldur, aldur til áfengiskaupa og giftingaraldur. Skapaður yrði markviss og skipulagður vettvangur þar sem ungmenni geta haft áhrif á samfélagið og að stofnað yrði Ungmennaráð Íslands sem kæmi að ákvarðanatöku í málefnum sem snerta ungt fólk.