Nefndum Alþingis fækkar

Ný lög um þingsköp Alþingis voru samþykkt í gær.
Ný lög um þingsköp Alþingis voru samþykkt í gær. Kristinn Ingvarsson

Fastanefndum Alþingis fækkar úr tólf í sjö og fer hver nefnd nú með víðfeðmara málasvið en áður samkvæmt nýjum lögum um þingsköp sem samþykkt voru í gær. Markmið breytinganna er sagt vera að styrkja og efla nefndastarfið enn frekar ásamt því að gefa nefndunum meira og betra svigrúm til starfa.

Nefndirnar sjö verða því allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuvega- og viðskiptanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, fjárlaganefnd, utanríkismálanefnd, velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Var frumvarpið flutt af forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur, og formönnum allra þingflokka en samkvæmt því verður ekki bein samsvörun milli ráðuneyta Stjórnarráðsins og málefnaskiptingar nefndanna, heldur ræður álag í nefndastarfi meira um verkefnaskipulag þingsins.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að meginmarkmið þess sé að gera þinginu betur kleift að annast þau verkefni sem því eru falin samkvæmt stjórnarskrá, einkum við að veita stjórnvöldum aðhald og hafa eftirlit með starfsháttum framkvæmdarvaldsins eins og mælt hafi verið með í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Frumvarpið um þingsköp Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert