Of mikil gleði fyrir Laugaveg

Frá gleðigöngu í miðbæ Reykjavíkur.
Frá gleðigöngu í miðbæ Reykjavíkur. Jakob Fannar Sigurðsson

Gleðigangan var orðin of stór fyrir Laugaveg og því var ákveðið að breyta gönguleiðinni í ár þannig að hún fari niður Sóleyjargötu í staðinn. Þetta segir Þorvaldur Kristinsson, forseti Hinsegin daga í Reykjavík. Þá hafi þurft að gæta að öryggi vegfarenda.

„Við gengum fyrst árið 2000 og þá voru um fimm þúsund manns á götum miðborgarinnar. Nú eru þarna um áttatíu þúsund manns og farartækin stækka með hverju ári. Þar sem við berum okkar ábyrgð á öryggi vegfarenda, ekki síst barna, þá eru þrengslin á Laugavegi og Bankastræti orðin of mikil til að við teljum þetta heppilegt,“ segir Þorvaldur.

Vaxandi tilhneiging hafi verið í þá átt að farartækin stækki með hverju ári og í stað þess að meina fólki að mæta til leiks á stórum farartækjum hafi verið ákveðið að bjóða það rými sem til þurfi.

Þannig verður formlegt upphaf göngunnar við hringtorgið á Sóleyjargötu og Njarðargötu. Þaðan verður gengið eftir Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi og Lækjargötu og loks endað á sama stað og venjan hefur verið við Arnarhól.

Einhverjar óánægjuraddir hafa heyrst um að gangan fari ekki lengur niður Laugaveg en Þorvaldur segist engar áhyggjur hafa af stemmingunni í göngunni með nýja fyrirkomulaginu.

„Það eru gríðarlega góð útsýnissvæði á Fríkirkjuvegi og Lækjargötu. Fólk má t.d. nýta sér aðra akreinina á Lækjargötu til að standa á og horfa. Svo er túnið við Menntaskólann. Þetta er niðurstaðan af langri umræðu og íhugun,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert