Farþegar vélar Iceland Express til Gautaborgar, þar á meðal 38 sykursjúk börn sem eru á leið í sumarbúðir, hafa verið fastir í sex tíma í Osló eftir að bilun kom upp í flugvélinni. Hafa farþegar engar upplýsingar fengið og vita enn ekki hvert framhaldið verður.
Ragnar Bjarnason, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, er í 45 manna hópnum sem er á leið í sumarbúðir fyrir sykursjúka unglinga í Gautaborg. Hann segir að þegar hópurinn kom á Keflavíkurflugvöll hafi verið tilkynnt að stoppað yrði í Osló á leiðinni þar sem lent var klukkan tólf á hádegi að íslenskum tíma.
„Þegar vélin átti að fara aftur af stað varð einhver bilun. Við biðum þrjá tíma í vélinni og síðan erum við búin að bíða hérna án þess að vita nokkuð hvað við eigum að gera. Við vitum ekki ennþá hvernig við komumst áfram,“ segir Ragnar.
„Við erum búin að vera læst hér í einskismannslandi í komuhöllinni og vissum ekkert hvert við ættum að fara. Það kom enginn að hjálpa okkur og enginn vissi neitt. Þetta er alveg ferlega lélegt. Það er eitt að það verði bilun en að það skuli ekki vera neitt varakerfi eða það fari neitt í gang er óþolandi,“ segir Ragnar.
Var hópurinn að fá að borða þegar mbl.is náði tali af Ragnari en hann segir töluvert stress hafa verið á tímabili því að börnin hefðu getað fengið blóðsykurfall og krampa.
Ekki náðist í talsmenn Iceland Express við vinnslu fréttarinnar.