Pétur Kr. Hafstein, forseti Kirkjuþings, sagði í setningarræðu þingsins í morgun að hann bæri fyllsta traust til Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands. Gerðar eru ýmsar athugasemdir við framgöngu hans í skýrslu rannsóknarnefndar þingsins um ásakanir á hendur Ólafi Skúlasyni fyrrum biskupi um kynferðisbrot sem birt var sl. föstudag.
Pétur sagði að tilgangurinn með skipun nefndarinnar á kirkjuþingi í nóvember sl. hafi verið að sýna að þjóðkirkjan vildi og gæti horfst í augu við raunveruleikann og viðurkennt það sem miður hefði farið á vettvangi hennar. Kirkjan væri og ætti að vera staður sem þeir einstaklingar sem höllum fæti standa gætu leitað til hvort sem það væri gagnvart starfsmönnum hennar eða annarra.
Pétur hvatti kirkjuþingsmenn til þess taka skýrslunni með jákvæðum og uppbyggilegum hætti. Hún fæli í sér einstakt tækifæri til þess að líta fram á veginn og velta við hverjum steini og færa mál til betri vegar eins og kostur væri. Sagði hann kirkjuþing vera rétta aðilann til þess að bregðast við efni skýrslunnar og koma málum í réttan farveg.
Ekki væri hægt að horfa framhjá því að margt í skýrslu rannsóknarnefndarinnar væri kirkjunni erfitt. Sagði hann markmiðið til framtíðar vera að tekið yrði á málum eins og því sem fjallað væri um í skýrslunni ef upp kæmu af eins mikilli fagmennsku og mögulegt væri.
Sagðist Pétur ennfremur bera þá einlægu von í brjósti að þær konur sem hefðu orðið fyrir miska af hálfu kirkjunnar virtu þann vilja þjóðkirkjunnar að færa mál til betri vegar.