Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og ríkisskattstjóri ætla í haust að ráðast í sérstakt átak til að hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að samningum sín á milli. Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, sagði á blaðamannafundi að vísbendingar væru um að svört atvinnustarfsemi hefði aukist að undanförnu.
Athyglinni verður sérstaklega beint að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og áhersla lögð á að svört atvinnustarfsemi, undanskot á launatengdum gjöldum og brot á kjarasamningum séu skaðleg fyrir alla hlutaðeigandi og samfélagið í heild sinni.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði mikilvægt að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja. Ekkert skattkerfi væri fullkomið og talað hefði verið um að kerfi þoldu svindl upp á 1-3%. „En um leið og þetta er farið yfir tiltekið mark sýkir það viðkomandi atvinnugrein,“ sagði hann.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði svindlið gjarnan fara fram með svokallaðri gerviverktöku, þegar fólk sem vanalega er á launaskrá er látið gerast verktakar. Um leið sé klipið af alls kyns réttindum og komist hjá að greiða lögbundin gjöld.
Í sumar og fram á haust munu fulltrúar frá þessum aðilum heimsækja vinnustaði, kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma. Atvinnurekendur og launafólk verður hvatt til að gera nauðsynlegar úrbætur, ef þurfa þykir.
Markmiðið með átakinu er að stuðla að betri skráningu tekna, tryggja að starfsmenn séu skráðir á launaskrá og farið sé að lögum og reglum. Um leið er hvatt til þess að opinber gjöld skili sér á réttum tíma ásamt lögboðnum og samningsbundnum framlögum til lífeyrissjóða og gjöldum stéttarfélaga.
Atvikið verður undir yfirskriftinni Leggur þú þitt að mörkum?