Öll olíufélög hafa hækkað

Orkan er með ódýrasta eldsneytið í kvöld en litlu munar …
Orkan er með ódýrasta eldsneytið í kvöld en litlu munar á olíufélögunum. Morgunblaðið/Friðrik

Olíufélagið N1 fylgdi á eftir öðrum félögum í kvöld og hækkaði verðskrá sína fyrir eldsneyti. Lítill munur er því á verði eldsneytis milli olíufélaga, samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma á vefsvæðinu GSMbensin.

Verð á lítra af 95 okt bensíni fæst ódýrastur hjá Orkunni á höfuðborgarsvæðinu en þar þarf að reiða fram 235.60 kr. Lítrinn er 20 aurum dýrari hjá Atlantsolíu og algengt verð hjá N1 er 235.90 kr. Hjá Shell kostar lítrinn 236.30 kr. og hjá ÓB 236.50 kr. Dýrastur er bensínlítrinn þetta kvöldið hjá Olís þar sem greiða þarf fyrir hann 236.80 kr.

Þegar kemur að díselolíu er lítrinn ódýrastur hjá Orkunni, 236.90 kr., og 20 aurum dýrari hjá Atlantsolíu. Lítrinn kostar 237.20 kr. hjá N1 og Shell en hjá ÓB kostar hann 239.40 kr. og hjá Olís 239.70 kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert