Samtök ferðaþjónustunnar eru mjög ósátt við þá niðurstöðu Alþingis að svokallaður gistináttaskattur muni ekki renna óskiptur til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Lögum skv. muni innheimtar tekjur útdeilast á fjárlögum að 60% renna í sjóðinn en 40% til ráðstöfunar fyrir þjóðgarða og friðlýst svæði.
Fram kemur í tilkynningu að Alþingi hafi samþykkt ný lög um gistináttaskatt þann 11. júní s.l. sem taki gildi um næstu áramót. Skv. þeim skal greiða 100 kr. af hverri gistináttaeiningu.
„Samtök ferðaþjónustunnar hafa ítrekað bent á að gististaðirnir í landinu séu ekki í stakk búnir til að taka á sig nýja skatta en sendu margar athugasemdir við frumvarpið sem var illa unnið og gerði ráð fyrir mjög flóknu fyrirkomulagi.
Samtökin lögðu m.a. mikla áhersla á að skatturinn rynni óskiptur til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og eru því mjög ósátt við niðurstöðu þingsins.
Tekjur sem innheimtast munu útdeilast á fjárlögum að 60% til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en 40% til ráðstöfunar fyrir þjóðgarða og friðlýst svæði.
Eðlilegra hefði verið að féð færi allt í sama sjóðinn og var ítrekað lögð áhersla á það við efnahags- og skattanefnd en á það var ekki hlustað. Þessir fjármunir munu falla undir tvö ráðuneyti og fara flókna leið og treysta samtökin því ekki að þessir peningar skili sér að fullu.
Samtök ferðaþjónustunnar hafa að undanförnu gert kannanir á gististöðum og kom í ljós að gríðarlegur fjöldi gistirýma reyndist án allra rekstrarleyfa og eftirlitið í molum og þá er spurt hver ætli að innheimta gistináttaskatt af slíkum fyrirtækjum,“ segir í tilkynningu frá SAF.