Þjóðkirkjan glataði trausti

Grensáskirkja.
Grensáskirkja. mbl.is/

Talsverðar umræður hafa skapast á kirkjuþingi um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar þingsins í tengslum við ásakanir á hendur Ólafi Skúlasyni, fyrrum biskupi, um kynferðisbrot.

Þær ræður sem haldnar hafa almennt verið mjög á sama veg. Rætt hefur verið um að þjóðkirkjan hafi glatað trausti vegna málsins sem nauðsynlegt sé að endurheimta. Bregðast verði við með sannfærandi hætti og fagmennsku. Kirkjan yrði að læra af málinu. Margt hafi verið fært til betri vegar síðan málið kom fyrst upp en margt væri enn óunnið í þeim efnum.

Fram kom að þörf væri á að ósk um fyrirgefningu til handa þeirra kvenna sem ásakað hafa Ólaf um kynferðisbrot, vegna þess hvernig tekið var á málum þeirra innan kirkjunnar, kæmi fram með skýrari og afdráttarlausari hætti. Ekki væri aðeins nóg að biðja þær fyrirgefningar heldur yrði að koma skýrt fram á hverju.

Þá hefur verið kallað eftir úrbótum á ýmsu í skipulagi kirkjunnar sem málið hafi sýnt að þurfi að breyta. Þar spilaði meðal annars inn í eins konar kunningjasamfélag sem komið hafi í veg fyrir að tekið væri á málum á gagnrýninn hátt.

Almennt eru þeir sem tekið hafa til máls sammála um að skýrslan rannsóknarnefndarinnar hafi verið faglega unnin og virðist vera almenn sátt um það. Þá var konunum ítrekað þakkað fyrir að hafa vakið athygli á málinu á sínum tíma og haldið því síðan til streitu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka