Samhljómur virðist vera um það á Alþingi, að Alþingi nýti ekki þau tækifæri sem gefast í EES-samstarfinu til að hafa áhrif á Evrópuþinginu, meðal annars á þær tilskipanir sem lögfestar eru hér á landi. Hvað þetta varðar er litið til Norðmanna sem halda úti tugum manna í Brussel til að fylgjast með því sem er að gerast. Að því er kom fram á þinginu fyrir helgi virðist það hafa komið þingmönnum nokkuð á óvart hversu góðan aðgang Norðmenn hafa í Brussel og að hlustað sé á athugasemdir þeirra.
Evrópumálin voru nokkuð til umræðu í síðustu viku og ekki síst samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður sama flokks, nefndu bæði að á umliðnum vikum hefði nokkuð mikið verið rætt um Evrópusambandið og EES-samninginn. „[V]ið á Alþingi höfum ekki nýtt okkur þau tækifæri sem gefast í EES-samstarfinu til að taka þátt í nefndastarfi á því stigi mála þegar engar ákvarðanir hafa enn verið teknar, áður en mál eru tekin upp í EES-samninginn,“ sagði Bjarni og Þorgerður sagði síðar að „okkar hagsmunir tengjast ótvírætt EES-samningnum og því verðum við að fylgja eftir þeirri umræðu sem hefur verið í þingsal um það hvernig þingið og stofnanir í samfélaginu geta virkjað þennan samning betur“.
Össur sagðist hafa rætt það hvernig þingið og þingflokkarnir gætu haft ákveðna aðkomu að Evrópuþinginu eins og Norðmenn með því að hafa þar fjölmenna skrifstofu, en Íslendingar hafa þar enga. „Ef það kæmi mál til kasta [Evrópuþingsins] sem væri andsætt hagsmunum Íslands myndu allir þingflokkarnir hafa sameiginlega afstöðu í því máli og geta unnið það með þeim hætti,“ sagði Össur en bætti við: „Ég tel hins vegar mun betra að við göngum í Evrópusambandið.“
Hún segir forvitnilegt að sjá hvað forsætisnefnd kemur til með að gera í sínum tillögum fyrir fjárlög næsta árs, hvort þingið ætli að nýta sér þá heimild sem það hefur til að fylgja eftir réttindum og hagsmunum Íslands í tengslum við EES-samninginn.