Ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hafa opinberað vanþekkingu sína á landsdómsmálinu. Þeir hafi ákveðið að beita ákæruvaldinu gegn tilteknum einstaklingum án þess að hafa kynnt sér niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis í pólitískum tilgangi. Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Var einhver að tala um pólitík í tengslum við ,,landsdómsmálið"? Skyldi
það vera hugsanlegt að einhverjir þingmenn hafi látið stjórnast af
hyggindum sem í hag gátu komið - pólitískt?“ segir Ingibjörg Sólrún í færslu sinni.
Segir hún rangt að rannsóknarnefndin hafi lagt fram tillögur um að rannsaka framgöngu oddvita ríkisstjórnarinnar í aðdraganda hrunsins eins og Steingrímur og Ögmundur hafi látið hafa eftir sér í viðtölum.
„Fólk getur haft á því mismunandi skoðanir hver sé ástæðan fyrir hruni íslenska fjármálakerfisins og hvaða einstaklingar eigi þar helst hlut að máli. En þegar þingmenn og ráðherrar fara með ákæruvald yfir einstaklingum duga ekki persónulegar skoðanir þeirra. Það verður að gera til þeirra þá kröfu að þeir kunni a.m.k. skil á niðurstöðum þeirrar rannsóknar sem á að liggja ákærum til grundvallar. Á því er greinilega mikill misbrestur,“ segir Ingibjörg Sólrún.
Færsla Ingibjarga Sólrúnar um landsdómsmálið á Facebook.