Aðeins ein þyrla verður til taks

Landhelgisgæslan hefur nú einungis tvær þyrlur í rekstri.
Landhelgisgæslan hefur nú einungis tvær þyrlur í rekstri. mbl.is

Þyrlan TF-LÍF verður ein til taks hjá Landhelgisgæslu Íslands í haust þegar TF-GNÁ fer í viðgerð. Þetta kom fram í Sjónvarpsfréttum RÚV. Georg Lárusson, forstjóri Gæslunnar, sagði í samtali við fréttamann RÚV, að það yrði bara að duga.

Staðan í dag er þannig hjá Gæslunni að varðskipin og Dash 8 flugvélin eru við Miðjarðarhafið þar sem sinnt er verkefnum fyrir Evrópusambandið. Ekkert íslenskt varðskip er því við Íslandsstrendur, og íslenska landhelgin svo gott sem óvarin.

Þó eru þyrlurnar tvær til taks, en það breytist í haust þegar TF-GNÁ fer í reglubundið eftirlit. Georg sagði að samninga við dönsk varðskip góða og hugsanlega þyrfti að leita til þeirra í haust, en það væri þó ekki á vísan að róa. Því verði það að duga sem Gæslan hafi upp á að bjóða hverju sinni.

Í frétt Morgunblaðsins frá því í apríl sl. var greint frá því að starfsmenn Landhelgisgæslunnar una stöðunni illa, og þeirri öryggisskerðingu sem hún leiðir til – bæði hvað þá sjálfa snertir en ekki síður sjófarendur sem treysta á aðstoð Gæslunnar í neyð. „Sú staða getur komið upp að einhver farist lengra úti á sjó en við getum farið. Það er ömurleg aðstaða. Þá er fáránlegt að pressan sé á flugstjóranum, af hverju hann fljúgi ekki samt,“ segir viðmælandi blaðsins sem þekkir vel til starfsemi Gæslunnar.

Hann segist vita til þess að margir séu farnir að óttast að eitthvað þurfi að gerast til þess að ráðamenn vakni til vitundar um alvöru stöðunnar, og er þá að vísa til slyss sem ekki reyndist unnt að bregðast við sem skyldi. Meginvandamálið sé fjárskortur og áhugaleysi um úrbætur.

Frétt Morgunblaðsins um stöðu Gæslunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert