Við óformlegar mælingar á fossum síðastliðinn sunnudag kom ljós að Glymur, sem löngum hefur verið talinn hæsti foss landsins, sé sennilega að missa stöðu sína sem slíkur. Er talið að fossinn sem mældur var við Morsárjökul sé ívið hærri en talið er að munurinn sé um 30 metrar.
Eins og Morgunblaðið greindi frá á forsíðu í gær, fóru Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur, Guðmundur Ögmundsson, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli, og Unnur Jónsdóttir, landvörður á Lónsöræfum, til reglubundinna mælinga á skriðuhlaupi í Morsárjökli síðasta sunnudag. Í kjölfarið ákvað Jón Viðar að gera einfalda hornamælingu á hæð fossanna sem sáust í klettabeltinu, en Jón hafði orðið var við þá áður og grunaði hann sterklega að þarna væri um að ræða hæstu fossa landsins.Við mælinguna kom í ljós að einn fossinn er um 228 m á hæð, en Glymur sem áður hafði verið talinn hæstur fossa hér á landi er einungis 198 metrar.
Ef rétt reynist mun Vatnajökulsþjóðgarður ekki einungis skarta stærsta jökli landsins og hæsta tindi landsins heldur einnig hæsta fossi landsins.
Að sögn Þórðar H. Ólafssonar, framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs, mun hann hafa samband við Landmælingar við fyrsta tækifæri og biðja um mælingu á fossinum.