Hiv-veiran breiðist nú hratt út meðal sprautufíkla. Yfir tíu tilfelli hafa fundist á fyrstu fimm mánuðum þessa árs.
Þetta kemur m.a. fram í grein Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis SÁÁ, í Morgunblaðinu í dag. Eru sprautufíklar í vaxandi mæli að sprauta sig með metýlfenídati í æð og HIV-sýkingar meðal þeirra þannig að breiðast út.
„Auðvitað höfum við heilbrigðisstarfsmennirnir beðið eftir þessum tíðindum með kvíða, en smitsjúkdómalæknar segja okkur nú að hætta sé á eins konar HIV-sprengju í þjóðfélaginu, sem byrjar með hraðri aukningu smita meðal fíkla en berst þaðan sem kynsjúkdómur út í þjóðfélagið almennt,“ segir Þórarinn m.a. en um sextíu sprautufíklar eru nú í meðferð hjá SÁÁ. Þeim hefur fjölgað eftir hrun.