Sérstakur saksóknari hefur fengið heimild til að hlera 106 símtæki á árunum 2009, 2010 og 2011. Á sama tíma hefur ríkislögreglustjóri aðeins fengið heimild til að hlera tólf símtæki. Þetta kemur fram í svari sem birt var á vef Alþingis í dag.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði innanríkisráðherra út í símhleranir. Í svarinu kemur fram að árið 2009 hafi 173 úrskurðir til símhlerana verið veittir og einum færri á síðasta ári. Það sem af er þessu ári hafi 73 slíkir úrskurðir verið veittir.
Flestar heimildir til símhlerana fær lögregla höfuðborgarsvæðisins, sem jafnframt fer með símhleranir á landsvísu. Á síðasta ári voru heimildirnar hins vegar jafnar hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins og sérstökum saksóknara, 72 heimildir á embætti.
Einnig spyr Gunnar Bragi um hvers konar fyrirtæki hlerað hafi verið hjá sömu ár. Segir í svarinu að á umræddu tímabili hafi símar fyrirtækja verið hleraðir í tveimur tilvikum. Hins vegar sé ekki hægt að veita nánari upplýsingar vegna rannsóknarhagsmuna. Í öðrum tilvikum hafi verið um einstaklinga að ræða.
Heimildir til hlerana eru einungis veittar með úrskurði dómstóla að undangenginni kröfu lögreglu þar um og að uppfylltum tilteknum lagaskilyrðum, þ.e. að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti, að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.