Krefur Jón Ásgeir um 15 milljarða

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þrotabú Baugs Group hefur höfðað skaðabótamál á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi stjórnarformanni félagsins. Búið krefur Jón Ásgeir persónulega um fimmtán milljarða króna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Málið snýst um það þegar Hagar voru seldir frá Baugi til eignarhaldsfélagsins 1998 ehf. í lok júní 2008 í fléttu sem kölluð var Project Polo. Málið var höfðað í lok síðasta árs og þingfest í febrúar.

Fimmtán milljarðar af söluverðinu fóru beint í það að kaupa hlutabréf í Baugi af fjórum félögum sem öll vöru í eigu stjórnarmanna Baugs. Félögin voru: Gaumur og Gaumur Holding, í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans. ISP eignarhaldsfélag, í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs og Bague SA, í eigu Hreins Loftssonar.

Í Fréttablaðinu kemur fram að skiptastjóri Baugs líti svo á að á þessum tíma hafi bréfin í Baugi verið nær einskis virði og Jón Ásgeir hafi með þessu, „ásamt fjölskyldu sinni„ eins og það er orðað, misnotað aðstöðu sína hjá Baugi til að koma verðmætum frá félaginu, sem þá stefndi hraðbyri í þrot, í vasa sjálfs sín og sér nákominna. Hvorki Hreini né Ingibjörgu er stefnt í málinu.

Jón Ásgeir  segir í Fréttablaðinu að málið sé „steypumál“. Salan á Högum hafi verið að undirlagi viðskiptabanka Baugs. Í greinargerð Jóns Ásgeirs í málinu kemur fram að frumkvæðið hafi komið frá stjórnendum Kaupþings og var kynnt af þáverandi forstjóra bankans, Hreiðari Má Sigurðssyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert