Peningalaus og synjað um aðstoð

Frá Fjölskylduhjálp Íslands.
Frá Fjölskylduhjálp Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einstæð móðir fatlaðs drengs hefur í tvígang fengið neitun um hjálp frá hjálparstarfi kirkjunnar. Konan er jafnframt öryrki. „Fyrst sótti ég um aðstoð og var boðuð á fund. Ég mætti á fundinn en þá var mér vísað burt því ég hafði engin gögn meðferðis, enda hafði mér ekki verið sagt að ég þyrfti að taka með mér gögn. Það var mjög vandræðalegt en ég var ekki sú eina sem lenti í þessu.“

Þegar hún hafði útvegað gögnin var henni svo synjað að nýju um hjálp. „Ég sótti bara um hjálp fyrir einn mánuð en var synjað af því ég ætti of mikið. Það var áætlað út frá því hversu mikið fór í tryggingar og ég reyndi að útskýra að það væri vegna mikils lyfjakostnaðar fyrir mig og barnið mitt.“

Konan segir að hún hafi verið peningalaus allan mánuðinn og hafi nú leitað til fjölskylduhjálparinnar eftir að hafa verið synjað einnig hjá félagsþjónustunni. „Þar var sagt að ég væri með of háar tekjur - bæturnar mínar eru 130 þúsund krónur á mánuði og sá peningur fer allur í að borga af íbúð og jafnframt að sinna barninu mínu sem er mjög fatlað.“

„Hjá Fjölskylduhjálpinni hafa þau hins vegar alltaf reynst mér og því hef ég leitað á náðir þeirra.“ Konan segir jafnframt að hún hafi tilkynnt fólki í kringum sig að hún geti ekki gefið neinar gjafir við hátíðleg tilefni. „Ég hef ekki einu sinni komist einu sinni í bíó í heilt ár með barninu mínu. Við eigum ekki sjónvarp, ég á ekki bíl og við eigum ekki tölvu. Ég lifi alls ekki hátt.“

Ásgerður Jóna Flosadóttir, hjá Fjölskylduhjálp Íslands, segir að opið verði í allt sumar hjá Fjölskylduhjálpinni. „Það eru engar biðraðir hjá okkur núna enda erum við byrjuð að úthluta númerum strax klukkan tíu á morgnana sem kemur í veg fyrir að biðraðir myndist.“

Hún segir ennfremur að ekki hafi farið fram næg umræða um svonefnd matarkort. „1.140 fjölskyldur fengu aðstoð miðvikudaginn fyrir páska og allir fóru sáttir með vel fyllta poka. Ef við myndum hins vegar láta fólk frá 10.000 kr. kort myndi slíkt kosta okkur rúmlega 11,4 milljónir. Sú upphæð dugar okkur til matarkaupa í þrjá mánuði og við gætum jafnframt veitt 11.400 fjölskyldum aðstoð. Við fáum allar birgðir á svo miklu betra verði en fólk fær með því að fara með svona kort inn í Bónus. Staðreyndin er sú að ekki nema að fólk vilji setja hundruð milljóna inn í þetta kerfi þá er ekki hagkvæmt að taka upp þessi kort.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert