Veggjald í Hvalfjarðargöngum hækkar um tæplega 10% að jafnaði frá og með 1. júlí 2011. Meginástæður þessa eru að umferð hefur dregist verulega saman og þar með rýrna tekjur af veggjaldi umtalsvert. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Í tilkynningunni kemur fram að þyngri greiðslubyrði af lánum, hækkandi verðlag og síðast en ekki síst miklar fjárfestingar sem ætlað er að uppfylla kröfur ESB um öryggi vegfarenda í veggöngum, alls 225 milljónir króna á tímabilinu 1. október 2010 til ársloka 2011, hafi haft áhrif til hækkunar.
Gjald fyrir staka ferð fer úr 900 krónum í 1.000 krónur.
„Umferð á landinu öllu hefur dregist mikið saman á undanförnum mánuðum og útlit er fyrir samdrátt núna í júnímánuði. Umferð í Hvalfjarðargöngum dróst saman um 8,15% á fyrstu fimm mánuði ársins 2011 og gert er nú ráð fyrir að hún verði 6% minni á öllu árinu 2011 en árið 2010. Það er samt nokkru minni samdráttur en Vegagerðin reiknar með fyrir landið allt," segir í tilkynningu.