Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) mun í dag veita árleg Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar en þau eru „þeim einstaklingi og samtökum sem hafa, að mati ungra sjálfstæðismanna, barist fyrir frelsishugsjóninni á opinberum vettvangi, óháð stjórnmálaskoðunum eða stjórnmálaþátttöku,“ eins og segir í fréttatilkynningu en verðlaunin eru kennd við Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.
Verðlaunin að þessu sinni verða veitt annars vegar samtökunum Advice, sem beittu sér gegn samþykkt laga um þriðju Icesave-samningana við Breta og Hollendinga og hins vegar Ragnari Árnasyni, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.
„Þrátt fyrir að meirihluti Alþingis hefði samþykkt að varpa meintum Icesave kröfum yfir á skattgreiðendur tók hópur manna sig til og háði mikla og erfiða baráttu sem að lokum skilaði sér í hagkvæmri niðurstöðu fyrir þjóðina. Að sama skapi hefur Ragnar Árnason háð mikla baráttu í gegnum árin fyrir hinu íslenska fiskveiðistjórnunarkerfi, kerfi sem aðrar þjóðir öfunda okkur af,” segir Ólafur Örn Nielsen, formaður SUS.
Verðlaunaafhendingin fer fram í dag við hátíðlega athöfn klukkan 17:30 í Valhöll.