Samningur Umhverfisstofnunar (UST) og Mýrdalshrepps um að sveitarfélagið annist umsjón og rekstur friðlandsins í Dyrhólaey bíður staðfestingar umhverfisráðherra. Gera á verndaráætlun fyrir svæðið með aðkomu allra hagsmunaaðila.
Ágreiningur um aðgang að Dyrhólaey hefur verið í fréttum. Nokkrir menn fjarlægðu skilti, umferðarmerki og hindrun sem sett hafði verið til að loka leiðinni að Dyrhólaey á föstudag. UST sendi starfsmann til að loka aftur leiðinni. Á sunnudag keyrði um þverbak en þá var stjakað við starfsmanni UST og skilti og staurar rifin niður. Einnig var ekið óvarlega hjá starfsmönnum UST. Lögreglan var kölluð til.
Þorsteinn Gunnarsson, ábúandi á Vatnsdalshólum og talsmaður ábúenda í Dyrhólahverfi, sakaði Umhverfisstofnun m.a. um aðgerðarleysi og vanrækslu í tilkynningu sem hann sendi frá sér.
„Ég lít það mjög alvarlegum augum. Það er ótrúlegt að svona sé gert við starfsmann sem er að reyna að sinna sínu starfi,“ sagði Kristín. Hún sagði að verið væri að ganga frá formlegri kæru vegna málsins og benti á að lögregla hefði verið kölluð til vegna þessara atvika.
Deilur um aðgang að Dyrhólaey hafa staðið áratugum saman. Umhverfisstofnun hefur tekið ákvarðanir um lokanir á vorin vegna fuglafriðunar. Ábúendur í Dyrhólahverfi hafa viljað hindra aðgang yfir varptímann og notið stuðnings friðlýsingar. Þeir sem annast ferðaþjónustu hafa viljað fá aðgang að eynni á sama tíma. Sveitarstjóri Mýdalshrepps, Ásgeir Magnússon, sendi út tilkynningu 12. júní sl. og lýsti m.a. yfir stuðningi sveitarstjórnar við sjónarmið ferðaþjónustunnar.
Kristín Linda sagði sáttaumleitanir um Dyrhólaey hafi verið langt komnar seinnipart síðustu viku og þá ríkti bjartsýni á framhaldið. Hún sagði að í fyrsta skipti hefði verið búið að fá landvörð til að sinna svæðinu, með aðkomu sveitarfélagsins. Friðlandið Dyrhólaey hefur verið á rauðum lista, sem þýðir að fara þarf í framkvæmdir til viðhalda verndargildi. „Nú vorum við búin að fá fjármagn í það. Jafnframt lá fyrir að Vegagerðin ætlaði að laga veginn. Fyrir síðustu helgi vorum við því vongóð um að loksins næðist sátt og friður um þetta svæði og að við færum í nauðsynlegar framkvæmdir. Það er alveg ljóst að svona hegðun, brot á náttúruverndarlögum og reglum um svæðið, getur sett þessi áform í uppnám,“ sagði Kristín Linda.
Stofnunin hefur fengið fuglafræðing til að leggja mat á fuglalífið í Dyrhólaey. Kristín Linda sagði það hafa verið lið í ákvarðanatöku um hvort loka bæri eyjunni til verndar fuglalífi eða opna hana að hluta eða að öllu leyti. Nú er Háey Dyrhólaeyjar opin ferðamönnum.
Þar segir m.a. að óheimilt sé „að skaða eða trufla dýralíf á hinu friðlýsta svæði. Hefðbundnar nytjar bænda í Dyrhólahreppi á æðarvarpi, fýl og lunda fá þó að haldast svo sem verið hefur.“
Þá segir m.a. 4. grein að Umhverfisstofnun geti takmarkað ferðir í Dyrhólaey á tímabilinu 1. maí til 25. júní. Þá kemur fram í auglýsingunni að til að fá undanþágu frá reglunum þurfi leyfi Umhverfisstofnunar eða þess sem fer með umboð stofnunarinnar. Einnig segir þar: „Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.“