Átta sjálfboðaliðar frá IFAW, Alþjóðadýraverndunarsamtökunum, munu í sumar dreifa fjölritum og ræða við ferðamenn um að þeir ættu ekki að leggja sér hvalkjöt til munns. „Hittið okkur, ekki éta okkur,“ er slagorðið. Vilji fólk kynnast hvölum ætti það fara í hvalaskoðunarferðir.
Hópurinn er við Ægisgarð í Reykjavík en þaðan fara bátar frá fjórum fyrirtækjum í hvalaskoðunarferðir.
Misskilningur að hvalkjöt sé vinsælt á Íslandi
Í fjölriti sem hópurinn dreifir segir að það sé áhyggjuefni að sala á hvalkjöti hafi aukist á Íslandi undanfarin ár. Einhverjir kynnu að halda að hvalkjöt væri vinsæll réttur meðal Íslendinga en svo sé alls ekki. Raunin sé sú að aðeins 5% Íslendinga borði hvalkjöt, skv. Gallup-könnun frá júní 2010.
Ein ástæðan fyrir aukinni sölu á hvalkjöti sé sú að ferðamenn séu hvattir til að borða hvalkjöt og það látið fylgja með að hvalkjöt sé hefðbundinn og vinsæll réttur á borðum Íslendinga. Þessi misskilningur valdi því að hvalir séu veiddir sérstaklega til að anna eftirspurn ferðamanna.
Hvaladráp er í eðli sínu grimmilegt - engin mannúðleg aðferð hafi fundist til að drepa hvali. Alþjóðahvalveiðiráðið hafi reynt að finna slíka aðferð um árabil en mistekist, segir í fjölritinu.
Aftan á fjölritinu eru fyrirtækjamerki sex íslenskra fyrirtækja sem fara með ferðamenn í hvalaskoðunarferðir.
Dvelja hér í tvær vikur í senn
Fjórir sjálfboðaliðar IFAW sem Morgunblaðið ræddi við í dag eru frá Austurríki, Hong Kong, Suður-Kóreu og Hong Kong. Þau sögðust dvelja hér í tvær vikur í senn, síðan kæmi annar hópur til að leysa þau af. Í gær var fyrsti dagur þeirra á vaktinni en fyrstu hóparnir voru farnir heim. Þau sögðu flesta taka vel í boðskapinn. Frá fyrri hópum hefðu þau heyrt að neikvæð viðbrögð kæmu einkum frá Íslendingum sem töldu ekki að þau ættu að vera skipta sér af málum á Íslandi.