„Ég ætla mér að hundsa hundabannið, ef svo má að orði komast. Ég hef verið hundaeigandi í 12 ár og hef margsinnis farið með hana Freyju, hundinn minn, niður í bæ á stórhátíðum. Ég var bara að heyra af þessu fyrst núna að hundar væru bannaðir á hátíðarsamkomum. Þessu vil ég mótmæla,“ segir Tómas Oddur Eiríksson, hundaeigandi.
Tómas segist vera hneykslaður á þessu banni. „Það er fáránlegt að fólk sem hefur alið hundana sína vel upp og veit að það getur treyst þeim þurfi að skilja þá eftir eina heima þegar öll fjölskyldan fer niður í bæ. Hundaeigendur sem eiga erfiða hunda eiga að hafa vit á því að fara ekki með þá á svona samkomur.“
Tómas segir ennfremur að hann hafi skilning á því að aðgengi hunda að tilteknum svæðum sé takmarkað. „En að setja svona allsherjarbann finnst mér ekki rétt. Ég þekki minn hund og veit að það er ekkert vesen á henni. Ég held að ef fólk getur verið með hundana sína á svona hátíðum hafi það góð áhrif á mannlífið. Hundarnir eru skemmtilegir og krakkarnir vilja fá að klappa þeim og svona.“
Tómas segir að hann viti ekki til þess að slík bönn séu í öðrum löndum. „Ég hef meðal annars búið í Suður-Ameríku og þar voru menn kannski vissulega full-frjálslegir oft og tíðum gagnvart þessu! En t.d. í Danmörku og Sviss þekkist þetta ekki.“
Óheimilt er að vera með hunda á hátíðarsamkomum, skipulögðum fyrir almenning. Þá er einnig óheimilt að vera með hunda í
nokkrum götum í miðborginni: Ingólfstorgi, Aðalstræti, Austurstræti,
Lækjartorgi, Bankastræti og Laugavegi að Rauðarárstíg.