Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms um að vísa frá dómi riftunarmáli Landsbankans á hendur Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans.
Landsbankinn hafði höfðað málið til riftunar á greiðslu 100.000.000 króna, hundrað milljóna króna, í séreignarlífeyrissparnað Halldórs þann 19. september árið 2008.
Ástæða þess að málinu var vísað frá var sú að í þinghaldi fyrir héraðsdómi þann 7. mars síðastliðinn lögðu lögfræðingar Landsbankans fram ný gögn og þar á meðal beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Í úrskurði héraðsdóms var matsbeiðnin talin fela í sér tilraun til að bæta úr óljósum málatilbúnaði í stefnu með síðbúinni matsbeiðni. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms.
Landsbankinn vildi fá dómkvaðningu matsmanna til að staðreyna að bankinn hefði í raun verið ógjaldfær í skilningi laga um gjaldþrotaskipti.
Mat héraðsdóms var að með matsbeiðninni hefði sóknaraðili í raun ætlað sér að færa sönnur á að reikningsskil bankans á árinu 2008 hefðu í veigamiklum atriðum verið röng og að jafnframt virtist sem sóknaraðili teldi að stjórnendur bankans hefðu á þeim tíma beitt ýmsum rangfærslum í reikningsskilum bankans til að halda uppi eiginfjárhlutfalli hans.
Hæstiréttur féllst á það mat héraðsdóms að stefndi Halldór hefði ekki getað gert sér grein fyrir þessari málsástæðu í stefnu.
Í dómi héraðdóms er vitnað í bókun frá kjaranefnd Landsbankans um málið þar sem kemur fram að þessari greiðslu í séreignarlífeyrissparnað ásamt annarri 155 milljón króna eingreiðslu frá Landsbankanum sama dag til Halldórs hafi verið ætlað að koma að hluta til móts við „[greiðslur] sem tengdust fyrirhuguðum starfslokum, fyrirkomulagi vegna starfa sem ráðgert var að HJK [Halldór J. Kristjánsson] tæki að sér fyrir bankann og samkomulagi vegna uppgjörs á samþykktum en óframkomnum kaupréttarheimildum og vissri jöfnun á kaupréttarheimildum yfirstjórnar bankans.“