Nálgast lokatakmarkið

Vel var tekið á móti hlaupurunum í Mosfellsbæ í hádeginu.
Vel var tekið á móti hlaupurunum í Mosfellsbæ í hádeginu. mbl.is/Golli

Fjórmenningarnir sem hlaupið hafa hringinn í kringum landið frá því 2. júní til styrktar krabbameinssjúkum börnum ljúka hringnum í dag. Þau eru nú í Mosfellsbæ en hlaupinu lýkur síðdegis í dag.

Signý Gunnarsdóttir og Sveinn Benedikt Rögnvaldsson hafa fylgt syni sínum Gunnari Hrafni eða Krumma í gegnum erfiða meðferð við hvítblæði. Þau hlaupa hringinn til stuðnings Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna ásamt systur Sveins og mági, Ölmu Maríu Rögnvaldsdóttur og Guðmundi Guðnasyni.

Hlaup dagsins er tileinkað Gunnari Hrafni en hann var rúmlega þriggja ára þegar hann greindist með bráðahvítblæði í janúar 2010. Meðferð hans var ansi ströng í eitt ár en er hann nú kominn á beinu brautina. Gunnar Hrafn hefur tekist á við veikindi sín af einstöku æðruleysi og sýnt óvenju mikinn styrk. Í dag er Gunnar Hrafn kátur leikskólastrákur sem byggir upp krafta sína og tekur framförum dag frá degi. 

Leik- og grunnskólabörn í Mosfellsbæ tóku vel á móti hlaupurunum, sem hlaupið hafa hringinn í kringum landið til styrktar krabbameinssjúkum börnum, þegar þeir komu inn í Mosfellsbæ. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri afhenti þeim áheitabréf upp á 100.000 krónur og bæjarfulltrúar færðu hjónunum hvorn sinn blómvöndinn með 15 rósum úr Mosfellsdal, eina rós fyrir hvern dag sem þau eru búin að hlaupa. Hópur hlaupara úr Mosfellsbæ tók á móti þeim við Esjurætur og hyggst hlaupa með þeim á leiðarenda.

Í ágúst 2010 tóku Sveinn og Signý, Alma María systir Sveins og Guðmundur maður hennar ákvörðun um að hlaupa hringinn í kringum landið fyrir Styrkarfélag krabbameinssjúkra barna og fá þannig tækifæri á að skila til baka til félags sem hefur reynst ómetanlegur stuðningur.

 Tæpar 11 milljónir hafa safnast í áheit í hlaupinu en hægt er að lesa nánar um hlaupið hér

Signý Gunnarsdóttir og Sveinn Benedikt Rögnvaldsson hafa fylgt syni sínum …
Signý Gunnarsdóttir og Sveinn Benedikt Rögnvaldsson hafa fylgt syni sínum Gunnari Hrafni eða Krumma í gegnum erfiða meðferð við hvítblæði mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert