Ekki liggur enn fyrir hvernig efnd verða stór fyrirheit um fjárfestingar o.fl. í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Mikil óvissa er uppi um framgang þeirra bæði í orku- og iðnaðarmálum og stórframkvæmdir í vegagerð.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir, að ASÍ og Samtök atvinnulífsins þurfi að ákveða í seinasta lagi næsta þriðjudag hvort allar forsendur eru fyrir hendi svo að nýju kjarasamningarnir gildi til næstu þriggja ára. Framkvæmdanefnd um framvindu samkomulagsins fundaði síðastliðinn mánudag.
„Grundvöllurinn að þessu öllu er að við sjáum fjárfestingarnar fara í gang. Það er því miður ekkert í sjónmáli um að eitthvað sé að gerast í þeim mæli sem við gerðum okkur væntingar um,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA. Að mati SA hafa mál á Austurlandi og á norðausturhorni landsins farið í allt annan gír en reiknað hafi verið með.