Fossafansinn í Morsárjökli

Fossinn í Morsárjökli
Fossinn í Morsárjökli mbl.is/Jón Viðar Sigurðsson

Hæstu fossa landsins er líklega að finna í klettabelti innarlega á Morsárjökli í Öræfum. Fossar þessir hafa stækkað og hækkað eftir því sem jökullinn hefur hopað og rýrnað.

Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur hefur fylgst með svæðinu allt frá því hann fór fyrst á Morsárjökul 1983. Mikið jarðhlaup varð vorið 2007 þegar um fimm milljóna tonna bergflykki losnaði úr snarbröttum hrygg inn af Birkdal. Neðri endi skriðunnar var nærri tvo kílómetra frá brotsárinu. Nýju fossarnir eru nálægt þar sem berghlaupið varð.

Jökullinn nær alveg fram á brún þverhnípts hamars. Vatnið undan jöklinum steypist fram af brúninni og myndar fossana.

„Vatnsmagnið er breytilegt. Þetta er breiðufoss sem fellur í mörgum kvíslum sem eru breytilegar frá ári til árs,“ sagði Jón. Sumir fossanna eru þó á sama stað. Inni í hvilftinni eru fleiri fossar sýnilegir. Sumir þeirra eru talsvert vatnsmiklir.

Jón Viðar sagði að Morsárjökull hefði þynnst um átta metra á ári að jafnaði síðustu árin og skaflarnir eitthvað svipað. Hann sagði að sig hefði lengi grunað að fossarnir væru þeir hæstu hér á landi. Jón Viðar fór til mælinga ásamt fleirum á Morsárjökli á sunnudaginn var. Að þessu sinni tók hann með sér hornamæli og sló máli á hæð fossanna. Hann mældi hæðina vera að minnsta kosti 228 metra en hann telur að líklega séu þeir nær 250 metra háir.

„Þessir fossar koma alltaf betur og betur í ljós og stækka ár frá ári. Maður veit ekki nákvæmlega hversu hátt þetta er. Þetta var einföld hornamæling sem við gerðum. Þeir eru örugglega vel yfir 200 metrar og eitthvað nær 250 metrum.“

Hvað á fossinn að heita?

Morgunblaðið og mbl.is hafa efnt til hugmyndasamkeppni á meðal lesenda sinna um nafn á hæsta fossi Íslands sem myndaðist í Morsárjökli.

Kominn er hnappur „Hvað á fossinn að heita?“ á forsíðu mbl.is. Þegar smellt er á hann opnast eyðublað þar sem lesendur geta skráð tillögu sína að nafni og merkt hana nafni, heimilisfangi og símanúmeri. Hugmyndasamkeppninni lýkur á hádegi fimmtudaginn 30. júní næstkomandi.

Ritstjórn Morgunblaðsins mun fara yfir tillögurnar og velja þær sem hún telur koma til greina sem nafn á fossinn. Veitt verða þrenn vegleg bókaverðlaun fyrir þær tillögur sem þykja skara fram úr. Niðurstaðan verður tilkynnt í Morgunblaðinu og á mbl.is laugardaginn 2. júlí næstkomandi.

Tillögurnar verða síðan sendar örnefnanefnd sem tillögur að nafni á fossinum.

Kort af helstu fossum landsins
Kort af helstu fossum landsins mbl.is/Elín Esther
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert