Frá Reykjavík fara á bilinu 3-4.000 manns í sérstakar lundaskoðunarferðir með Lundahraðlestinni og í hvalaskoðunarferðum frá Reykjavíkurhöfn er jafnan komið við í grennd við lundabyggðir. Í Vestmannaeyjum fara um 20.000 manns í ferðir með Viking Tours, einkum til að skoða lunda. Minjagripaverslanir bjóða líka gríðarlegt úrval af hvers kyns lundaminjagripum.
Lundaskoðun er sem sagt afar vinsæl meðal erlendra ferðamanna og ljóst að miklir fjármunir skila sér í þjóðarbúið í gegnum hvers kyns lundaskoðunarferðir víða um land. Sterkur lundastofn er augljóslega mikils virði.
Hjörtur Hinriksson, framkvæmdastjóri Sérferða, sem gerir út Lundahraðlestina frá 1. maí til 20. ágúst, hefur áhyggjur af fregnum um að lundavarp í Akurey hafi fyrir helgi ekkert verið komið af stað. Hjá fyrirtækinu séu fjögur stöðugildi eingöngu vegna Lundahraðlestarinnar. „Þetta lítur ekkert sérstaklega vel út,“ segir hann. Fari lundinn snemma úr Akurey verði að stytta ferðatímabilið sem leiði til þess að viðskiptavinum muni fækka um allt að helming. Fólk sé byrjað að tala um að minna sé af fugli. „Og við finnum strax að það koma færri í þessar ferðir hjá okkur,“ segir hann. Reyndar hafi verið mikið af lunda við Akurey í fyrradag og í gær.
Sigurmundur fylgist grannt með yfirborðshita sjávar í kringum eyjarnar og segir að í fyrradag hafi hitinn skyndilega hækkað úr 8,4°C í 9°C og um leið hafi lundinn sest upp í brekkurnar.
Aðspurður segir hann að varphrunið í lundastofninum hafi ekki leitt til þess að lundinn hverfi af þeim slóðum sem hann fer með ferðamennina á. Lundinn verði gamall og þoli áföll. Vonandi rétti hann fljótt úr kútnum.