Staðfestir ásakanir um brot

Landakotsskóli
Landakotsskóli mbl.is/Jim Smart

Kaþólski biskupinn á Íslandi, Pétur Bürcher, staðfestir að hafa fengið bréf síðastliðinn vetur þar sem lýst er kynferðislegu ofbeldi sem fyrrum nemendur við Landakotsskóla höfðu orðið fyrir af hálfu fyrrum skólastjóra skólans, kennara og samstarfskonu. Fjallað er um málið í Fréttatímanum í dag.

Í tilkynningu frá kaþólsku kirkjunni á Íslandi kemur fram að strax hafi verið brugðist við með þeim hætti að funda með bréfritara sem hafi orðið fyrir kynferðisofbeldinu af hálfu eins kennara við skólann sem og bróðir hans en sá varð fyrir ofbeldi af hálfu skólastjóra Landakotsskóla og samstarfskonu hans.

Í kjölfar fundarins áttu sér stað bréfaskipti milli aðila vegna málsins, samkvæmt fréttatilkynningu frá kaþólsku kirkjunni. Þar kemur m.a. fram að kirkjan geti ekki tekið afstöðu til þeirra alvarlegu ásakana sem settar eru fram gagnvart fyrrum starfsmönnum kirkjunnar. Var bréfritari hvattur til að leita til yfirvalda vegna málsins og myndi kirkjan veita alla þá aðstoð sem unnt væri til að upplýsa málið, segir í tilkynningu.

„Úrlausn málsins var unnin í samráði við lögmann kaþólsku kirkjunnar. Þá er rétt að fram komi að biskup var boðaður til fundar í innanríkisráðuneytinu en fundinn sátu auk ráðherra og ráðuneytisstjóra, fulltrúi lögreglu og barnaverndarstofu. Á fundinum gerði biskup kaþólsku kirkjunnar grein fyrir viðbrögðum við áðurnefndu bréfi og upplýsti ennfremur að kirkjan, í samráði við biskupa í hinum Norðurlöndunum, vinni að gerð samræmdrar áætlunar hvernig starfsfólk kirkjunnar eigi að bregðast við komi upp mál eða ásakanir af þeim toga sem hér um ræðir.

Biskup, Pétur Bürcher, og kaþólska kirkjan á Íslandi áréttar að hún lítur mál af þessum toga mjög alvarlegum augum og vill í samráði við yfirvöld samræma viðbrögð komi upp mál af þessum toga," segir enn fremur í tilkynningunni frá kaþólsku kirkjunni á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert