Funda um samgöngumálin

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefur boðað til fundar síðdegis í dag með fulltrúum atvinnurekenda og launþega til að ræða um samgöngumál.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur sagt að forsendubrestur sé fyrir kjarasamningum þar sem ríkisstjórnin hafi ekki efnt loforð sín. Ögmundur segir að enginn forsendubrestur sé til staðar.

„Þetta er ekki forsendubrestur. Það voru engin önnur loforð gefin en að skoða þessi mál og það voru engin fyrirheit gefin um að teknir yrðu upp vegatollar,“ segir Ögmundur.

„Við munum funda núna síðdegis um samgöngumálin. Það var stefnt að því að ráðast í flýtiaðgerðir í vegamálum sem fjármagna átti með vegatollum. En veruleikinn er sá að andstaða gegn vegatollum hefur aukist mikið að undanförnu.“

Ögmundur segist hafa orðið mjög var við aukna andstöðu við vegatolla. „Ég fékk á sínum tíma 40.000 undirskriftir gegn þeim og það eru skilaboð sem ég tek mjög alvarlega. Við erum eftir sem áður að verja gríðarlegum fjármunum í samgönguframkvæmdir. “

Hann bætir við að rætt verði við Vegagerðina um hvers konar framkvæmdir skapi flest störf. „Það eru jafnframt ekki endilega dýrustu framkvæmdirnar sem skapa flest störf.“

Fulltrúar launþega og atvinnurekenda hafa frest til þriðjudags til að ógilda kjarasamningana telji þeir stjórnvöld ekki hafa uppfyllt sitt hlutverk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka