„Fundurinn var ágætur, hreinskiptinn og prýðilegur,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, um fund sem hann hélt í dag með fulltrúum launþega og atvinnurekenda.
„SA og ASÍ eru fylgjandi því að ráðast í flýtiframkvæmdir í samgöngumálum en ég hef bent á þá andstöðu sem upptaka vegatolla hefur mætt frá almenningi og fyrirtækjum,“ segir Ögmundur.
Ögmundur segir að nýr veruleiki blasi við í þessum málum. „Það hafa skipast veður í lofti frá því að fyrst var farið að ræða þetta. Það er meiri andstaða gegn vegatollum og þegar fimmtungur kosningabærra manna skrifar undir mótmæli gegn þeim þá verðum við að hlusta á það.“
Ögmundur segir að nú verði gert hlé á viðræðum og hann sjái ekki fyrir sér að þær hefjist aftur á næstu dögum. „Nú fær málið að þroskast næstu mánuði. En ég legg áherslu á að við erum að fara yfir með hvaða hætti við ætlum að setja milljarða í vegaframkvæmdir í ár og á næsta ári. Áherslan er á að stuðla að öryggi á vegum, bæta samgöngur og skapa störf. Það er ekki verið að hverfa frá þessum hugmyndum þótt vegatollar verði ekki teknir upp. Málin þróast bara hægar.“
Kjarasamningar ráðist ekki einvörðungu af vegatollum
Aðspurður um áhrif á kjarasamninga segir Ögmundur ekki búast við því að þeir standi og falli með vegatollum. „Það er þeirra að ákveða hvort þeir [ASÍ og SA] staðfesta en ég hef ekki trú á því að þeir láti kjarasamninga ráðast af vegatollum. Þeir hljóta að hlusta á rödd þjóðarinnar. Það er það sem við verðum fyrst og fremst að gera.“
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir að standa ekki við loforð sín sem gefin voru við gerð kjarasamninga 5. maí. Fulltrúar launþega og atvinnurekenda hafa frest til þriðjudags til að ógilda kjarasamningana telji þeir stjórnvöld ekki hafa uppfyllt sitt hlutverk.