Boðað er til söngmótmæla á Ingólfstorgi kl. 14.00 í dag þar sem sungin verða nokkur kreppulög og fleiri viðeigandi.
Í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum mótmælanna segir að tilefnið sé ekki síst samstaða með mótmælunum í Evrópu en í dag er fimmti sunnudagurinn sem Evrópubúar safnast saman á götum og torgum í borgum víða í Evrópu.
Í tilkynningunni segir að evrópsku mótmælin beinist fyrst og fremst gegn því að stjórnmála- og bankamenn skuli fara með almenning eins og verslunarvöru.
Sunnudaginn 19. júní beinist áherslan að samningi sem verður undirritaður á ráðherrafundi ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins þann 27. júní næstkomandi en samningurinn lýtur að björgunaraðgerðum til að mæta efnahagskreppu Spánverja. Vilja skipuleggendur benda á að umræddar björgunaraðgerðir eru náskyldar þeim sem fylgdu aðgerðaráætlun sem ríkisstjórn Íslands undirgekkst í samningum sínum við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Þá er í tilkynningunni vakin athygli á því að á framangreindum ráðherrafundi hefjast einnig formlegar aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Það er því margföld ástæða til að sameinast niður á Ingólfstorgi á morgun, en Evrópusambandið á skrifstofur sem snúa út að torginu, og syngja fyrir mannfrelsi á kvenfrelsisdaginn.