Talið er að um 4000 manns hafi mætt á „Meistaraleik Steina Gísla“ á Akranesi í gær. Um var að ræða fjáröflun til stuðnings Sigursteini Gíslasyni og fjölskyldu hans en Sigursteinn glímir nú við erfitt krabbamein eftir afburðaíþróttaferil.
Það voru vinir Sigursteins sem skipulögðu leikinn en á vellinum mættust samherjar Sigursteins úr meistaraliðum ÍA og KR. Að sögn áhorfanda var góð stemmning á vellinum þar sem gamlir andstæðingar lögðust á eitt fyrir gott málefni.
Leikurinn fór 2-2 en margar kempurnar mættu til leiks í góðu veðri.
Eins og fyrr sagði rann allur ágóði af seldum miðum til fjáröflunar fyrir Sigurstein og fjölskyldu hans en dæmi voru um að fólk keypti fleiri aðgöngumiða til að styrkja söfnunina aukalega.