„Það er ekki hægt að ná árangri í fiskveiðum með því að friða fisk,“ segir Jón Kristjánsson fiskifræðingur. Hann telur nýbirtar niðurstöður Hafrannsóknastofnunarinnar um langtímabreyingar í fæðunámi þorsks sanna þessa fullyrðingu og vera stórfrétt.
„Þetta er stórmerkilegt. Þeir eru að viðurkenna það sem þeir hafa alltaf neitað,“ sagði Jón í samtali við mbl.is. Hann sagði rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar sanna það sem haldið hefur verið fram að þorskurinn hafi bein áhrif á fæðuframboðið.
Þegar rækjan t.d. minnki þá hafi hann minni rækju að éta og svo sé rækjan búin. Sama gildi um aðra fæðustofna þorsksins. Jón sagði þetta vera grundvallaratriði - að fiskistofnar hafi áhrif á aðra stofna með áti sínu.
Þá benti Jón á að í fréttinni komi fram að þorskurinn éti stærri fiska, síld, kolmunna og þorsk auk loðnu, rækju og sandsílis. „Nú vantar sandsíli og það vantar smáþorsk. Smáþorskur sem mælist í ralli skilar sér ekki áfram því hann er fóður fyrir stóra þorskinn,“ sagði Jón.
Hann sagði að bágt ástand þorskstofnsins verði örugglega ekki skýrt með ofveiði. „Þetta stangast á við fullyrðingar um langtíma ofveiði sem standi fiskstofnunum fyrir þrifum,“ sagði Jón.
„Eina leiðin til að auka fæðuframboðið og gefa stofnum á borð við rækju, sílinu eða hvað sem er tækifæri til að vaxa er að drepa þorsk.“
Jón sagði að nú komi það fram svart á hvítu að fæðuskortur hafi staðið þorskstofninum fyrir þrifum allt frá árinu 1995. Þetta samræmist ekki fullyrðingum um stöðuga ofveiði og það verði að draga úr þorskveiðum til að stækka stofninn.
„Ég tel að stjórnvöld verði að taka friðunarstefnu Hafrannsóknastofnunarinnar strax til alvarlegrar endurskoðunar,“ sagði Jón.