Georg Guðni látinn

Georg Guðni Hauksson listmálari.
Georg Guðni Hauksson listmálari. mbl./Einar Falur Ingólfsson

Georg Guðni Hauksson, listmálari, varð bráðkvaddur laugardaginn 18. júní sl.

Hann fæddist í Reykjavík 1. janúar 1961. Foreldrar hans eru Karitas Jónsdóttir kjólameistari og Haukur Tómasson jarðfræðingur.

Georg Guðni stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands í Reykjavík 1980-1985 og síðan við Jan Van Eyck Academie í Maastricht í Hollandi 1985-1987.

Fyrsta einkasýning hans í Nýlistasafninu í Reykjavík árið 1985 vakti mikla athygli, enda birtist þar sérstök sýn á íslenskt landslag í fjallamyndum hans og markaði upphaf að ferli hans sem frumkvöðuls í endurreisn landslagsmálverksins með nýstárlegri túlkun formrænt og hugmyndalega.

Georg Guðni hélt fjölmargar málverkasýningar víða um heim og hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín, m.a. Menningarverðlaun DV árið 1988, tilnefningu til Ars Fennica verðlaunanna árið 2000 og þrívegis tilnefningu til Carnegie verðlaunanna. Verk hans eru í eigu margra listasafna á Íslandi og erlendis. Listasafn Íslands hélt yfirlitssýningu á verkum hans árið 2003 er hann var einungis 42 ára.

Hann sat í stjórn sjóðs Richard Serra, í safnráði Listasafns Íslands og kenndi í Listaháskóla Íslands og víðar.

Georg Guðni lætur eftir sig eiginkonu, Sigrúnu Jónasdóttur, og fimm börn á aldrinum 8-23 ára.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert