Hjólar 400 kílómetra á 4 dögum

Þórir Kr. Þórisson.
Þórir Kr. Þórisson.

Þórir Kr. Þórisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Fjallabyggð, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, en hann mun hjóla frá Seltjarnarnesi til Siglufjarðar nk. þriðjudag til styrktar Iðju/dagvistun fyrir fatlaða á Siglufirði.

Aðspurður segist Þórir ætla að leggja af stað klukkan sex að morgni þriðjudagsins frá Seltjarnarneskirkju en hann áætlar að ferðin muni taka fjóra daga. „Mig hefur alltaf langað til að hjóla frá Seltjarnarnesi til Siglufjarðar og þegar ég frétti að Iðja gæti ekki fjármagnað skynörvunarherbergið, sem staðið hefur til að koma á laggirnar lengi, ákvað ég að láta slag standa,“ segir Þórir kappsamur, en hann segir að málefni fatlaðra séu sér mjög hugleikin og bætir því við að Iðja/dagvistun í Fjallabyggð veiti fólki þjálfun, vinnu, umönnun og afþreyingu sem fötlunar sinnar vegna þarf á sérhæfðri og einstaklingsmiðaðri þjónustu að halda.

Skynörvunartæki miða að því að örva skynfæri fatlaðra einstaklinga sem ná ekki sömu skynjun út úr umhverfi sínu sem eðlilegt telst að ná.

Spurður út í starfsemi Iðju segir hann starfið miða að því að aðstoða fatlaða við að vera virkir þátttakendur í daglegu lífi. Í dag nýta tólf einstaklingar sér þjónustuna og eru þeir 18 ára og eldri.

Þórir vill hvetja fólk til að leggja málefninu lið, en stefnt er að því að safna einni milljón. Þeir sem vilja gera það geta gert það með því að leggja inn á reikning:1102-05-402699, kt. 580706-0880 í Sparisjóði Siglufjarðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert