Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur í dag ræðu á setningarathöfn fjölþjóðlegrar ráðstefnu um norðurslóðir sem haldin er í Alaska.
Viðfangsefni hennar er að ræða nauðsyn framkvæmda og sérstakra framtíðaráætlana með tilliti til nýrra siglingaleiða sem bráðnun íss á Norðurslóðum mun innan tíðar hafa í för með sér, að því er fram kemur í tilkynningu frá forsetaembættinu.
„Ráðstefnan ber heitið „Hugsið um Beringssund sem næsta Panamaskurð.“ Með heitinu er gefið til kynna að hinar nýju siglingaleiðir við Alaska í vestri og Rússland, Noreg og Ísland í austri gætu haft eins byltingarkenndar afleiðingar fyrir efnahagslíf veraldarinnar, verslun og viðskipti milli heimsálfa, og Panamaskurðurinn og Súesskurðurinn höfðu á sínum tíma.“
Á meðan forseti dvelur í Alaska mun hann eiga fund með Sean Parnell, ríkisstjóra Alaska, og öðrum ráðamönnum fylkisins, m.a. Mead Treadwell vararíkisstjóra sem um árabil hefur unnið með forseta Íslands að málefnum Norðurslóða.