Þorskurinn hefur minna að éta

Mataræði þorsksins hefur verið rannsakað frá 1985.
Mataræði þorsksins hefur verið rannsakað frá 1985. Rax / Ragnar Axelsson

Verulegar breytingar hafa orðið á mataræði íslenskra þorska síðustu þrjátíu árin. Hafrannsóknastofnunin hefur rannsakað fæðu þorsks á Íslandsmiðum frá árinu 1985. Svo lítur út sem þorskurinn hafi haft minna að éta frá 1995 en áður og meðalþyngd hans líklega minnkað þess vegna.

„Þessar rannsóknir hafa einkum farið fram í mars, í árlegu togararalli síðan 1985, og að haustlagi í haustralli síðan 1996. Á þessum tíma hefur fæðuval þorsks verið rannsakað í um 74 þúsund fiskum í mars og um 61 þúsund fiskum að haustlagi,“ segir í nýrri frétt á vef Hafrannsóknastofnunarinnar. 

Ólafur K. Pálsson og Höskuldur Björnsson, sérfræðingar á Hafrannsóknastofnuninni, birtu nýlega niðurstöður rannsókna á mataræði þorska í vefútgáfu tímarits Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES Journal of Marine Science).

Þar kemur m.a. fram að loðna, rækja og ljósáta hafi verið meginfæða þorsksins öll árin og því réttnefnd undirstöðufæða hans hér við land. Loðnan var þó langmikilvægust. Önnur mikilvæg bráð var síld, kolmunni, sandsíli og þorskur.

„Verulegar breytingar hafa verið í áti þorsks á umræddu tímabili. Einna mestar breytingar hafa verið í áti á loðnu og rækju, og hefur át á þeim minnkað síðustu 10-15 árin eða svo. Einnig hefur át á ýmsum öðrum fæðutegundum sveiflast talsvert og var át á sandsíli í hámarki um 1995 en át á kolmunna um miðjan síðasta áratug. Breytingar af þessu tagi takmarkast oft við ákveðinn árstíma (mars eða haust) eða stærð þorsks,“ segir m.a. í fréttinni.

Þá kemur þar fram að heildarát þorsks hafi minnkað frá því um 1995 vegna þess að stofnar sem hann hefur sótt í, einkum loðna og rækja, hafa minnkað. Uppbótarfæða á borð við kolmunna og sandsíli hefur líka minnkað. „Þessar aðstæður skýra líklega minnkandi meðalþyngd þorsks eftir aldri undanfarin ár (2003-2009),“ segir í fréttinni.

Frétt Hafrannsóknastofnunarinnar um mataræði þorska

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka