Fallin frá kúlulánahugsuninni

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Ernir

Stórframkvæmdir við breikkun Suðurlands- og Vesturlandsvegar verða ekki settar í flýtiframgangsröð að sögn Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Stjórnvöld eru fallin frá kúlulánahugsuninni við fjármögnun framkvæmda, að sögn hans.

„Þetta byggði á því að við ætluðum að fjármagna þessi verkefni með vegagjöldum. Við höfum fengið mjög eindregin andmæli við því úr samfélaginu, frá samtökum bifreiðaeigenda og frá atvinnurekendum líka,“ segir Ögmundur.

Ögmundur lýsir ánægju með að verkalýðs- og atvinnurekendasamtökin hafi ákveðið í dag að falla ekki frá kjarasamningunum til þriggja ára.

Spurður um gagnrýni SA og ASÍ á ríkisstjórnina fyrir að efna ekki fyrirheit um stórframkvæmdir í vegagerð segir Ögmundur að þessi umræða sé að þróast mjög vel. „Ég tel að menn eigi að einblína á það sem er sameiginlegt í þessari umræðu. Við viljum stuðla að samgöngubótum, auknu öryggi í samgöngukerfinu og að finna verkefni sem skapa sem flestu fólki atvinnu,“ segir Ögmundur.

Hann segist fagna þeim áherslum sem komið hafi frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda um vegabætur, sem sé mjög í þeim anda sem hann hafi talað fyrir.

Aðspurður segir Ögmundur að framkvæmdir í vegagerð muni ekki aukast umfram getu. „Við erum fallin frá kúlulánahugsuninni um að ráðast í framkvæmdir og sjá svo bara til hvernig við ætlum að borga fyrir þær. Núna viljum við sjá fyrir endann á öllum hlutum,“ segir ráðherrann.

Sex milljarðar fara til nýframkvæmda í vegagerð á þessu ári og spurður hvort auka eigi framlög til þeirra segist Ögmundur vilja sem ráðherra samgöngumála fá sem mesta fjármuni í þann málaflokk. „En þá þarf að skoða það með hliðsjón af heildarútgjöldum og forgangsröðun útgjalda ríkisins og þá horfum við líka til velferðarkerfisins, menntakerfisins og allra annarra hluta. Aauðvitað vil ég stuðla að því að vegakerfið verði bætt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert