„Við erum náttúrulega bara að tryggja hag alls atvinnulífsins. Þannig að við teljum að ef við hefðum farið að fella samninginn þá hefði það sett allt upp í loft og það er kannski það síðasta sem við þurfum í dag,“ segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), en samtökin ákváðu í dag að staðfesta kjarasamningana sem undirritaðir voru þann 5. maí síðastliðinn.
Eins og komið hefur fram lá fyrir að frestur til þess að staðfesta kjarasamningana rynni út í dag en staðfesting þeirra þýðir að þeir gilda í þrjú ár eða til 31. janúar 2014 eins og til stóð en hefðu annars aðeins gilt út þetta ár.
Vilmundur segir SA eftir sem áður mjög ósátt við framgöngu stjórnvalda í tengslum við kjarasamningana og einkum vanefndir á loforð um um að farið yrði í auknar framkvæmdir. Þá séu aðgerðir stjórnvalda gagnvart sjávarútveginum í landinu ekki til þess fallnar að hjálpa til við að koma efnahagslífinu aftur í gang.