Kreditkort ætlar að kæra til áfrýjunarnefndar neytendamála þá niðurstöðu Neytendastofu að framkvæmd greiðsludreifingar sem korthöfum hefur verið boðið upp á frá 1991 brjóti i bága við ákvæði laga um neytendalán.
Martha Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri Kreditkorts, segir í yfirlýsingu að ef niðurstaða Neytendastofu verði staðfest af áfrýjunarnefnd neytendamála hafi hún í för með sér verulegt óhagræði fyrir neytendur.
„Það er ekki aðeins Kreditkort sem hefur boðið korthöfum upp á framkvæmd greiðsludreifingar með þessum hætti, heldur allir kortaútgefendur MasterCard og Visakorta,“ segir hún í yfirlýsingu.
„Við höfum litið svo á að með umræddri greiðsludreifingu sé verið að veita viðskiptavinum greiðslufrest. Til þessa hafa korthafar getað gengið frá greiðsludreifingu símleiðis en ef niðurstaða Neytendastofu verður staðfest verður slík þjónusta ekki lengur í boði. Korthafar verða þá að mæta til viðkomandi kortafyrirtækis og ganga frá sérstökum lánasamningi, svipuðum og raðgreiðslusamningi hjá kaupmönnum, ef þeir þurfa greiðsludreifingu á kortareikningi sínum. Þessu mun fylgja mikið óhagræði fyrir viðskiptavini og meiriháttar kerfisbreyting fyrir alla útgefendur kreditkorta, sem í 20 ár hafa boðið upp á framkvæmd greiðsludreifingar með fyrrnefndum hætti,“ segir Martha ennfremur.