Í dag voru undirritaðir í Mývatnssveit samstarfssamningar og friðlýsingar vegna tveggja vinsælla ferðamannastaða í sveitinni, þar sem eru Dimmuborgir og Hverfell/fjall Að því tilefni var íbúum sveitarinnar og öðrum boðið til athafna sem fóru fram á Hallarflöt í Dimmuborgum, síðan við Hverfellstjarnir og loks í Vogafjósi.
Það voru fulltrúar Umhverfisráðuneytis, landeigenda, og sveitarstjórnar sem gengu frá pappírum vegna þessa.
Dimmuborgir eru í eigu Landgræðslunnar en Hverfell/fjall í eigu landeigenda Voga.
Svandís Svavarsdóttir ráðherra ávarpaði samkomuna á báðum stöðum, en auk hennar töluðu Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri, Anna K Ólafsdóttir frá Umhverfisstofnun, Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar, og Jóhann Friðrik Kristjánsson formaður landeigendafélags Voga. Fram kom í ræðum að báðar þessar friðlýsingar áttu sér skamman aðdraganda en eftir að frumkvæði kom frá landeigendum var unnið hratt en markvisst að því að ljúka málinu, en á þessu ári hafa verið tryggðar 5 milljónir kr. til verkefnisins.
Í máli Svandísar ráðherra kom fram að áfram verði haldið á sömu braut með helstu ferðamannastaði Mývatnssveitar, enda hefur verið stofnað til samstarfsvettvangs í því skyni, þar sem fulltrúi ráðuneytis, Umhverfisstofnunar og jarðeigenda eiga sæti, eftir því sem við á hverju sinni.
Væntingar eru við það bundnar meðal heimafólks að samningarnir leiði til þess að vegabætur, stígagerð og aðrar lagfæringar gangi greiðlega í framtíðinni og að fjármagn hafi verið tryggt til framtíðar með þessum gjörningi.
Að loknum athöfnum á fyrrgreindu stöðunum var farið í Vogafjós þar sem boðið var uppá myndarlegar veitingar. Töluvert fjölmenni kom til athafna þessara.
Mikill fjöldi fólks heimsækir Dimmuborgir á ári hverju og þar má segja að Landgræðslan hafi staðið myndarlega að verki, enda komin á margan hátt prýðileg aðstaða fyrir ferðamenn, nú síðast með tilkomu Kaffi Borga.
Við Hverfell/fjall, er aftur á móti varla hægt að tala um aðstöðu, þar er vissulega mikið verk óunnið en þangað koma tugir og jafnvel hundruð gesta daglega yfir sumartímann.