Áhöfn Baldurs, eftirlits- og sjómælingaskip Landhelgisgæslunnar, hefur frá byrjun maímánaðar farið til eftirlits um borð í rúmlega 100 báta á Íslandsmiðum.
Fram kemur á vef Gæslunnar að gefin hafi verið út ein kæra og einnig smávægilegar athugasemdir verið gerðar , aðallega vegna lögskráningarmála sem hægt hafi verið að lagfæra með einföldum hætti.
Þá segir að þetta sé þriðja sumarið í röð sem Baldur hafi verið notaður til fiskveiðieftirlits í samvinnu við Fiskistofu.
Í áhöfn eru fjórir menn frá Landhelgisgæslunni auk tveggja eftirlitsmanna frá Fiskistofu.
Á vef Gæslunnar segir ennfremur að við eftirlit og skyndiskoðanir sé sérstaklega horft til veiða á lokuðum svæðum, ólöglegra veiðarfæra, brottkasts, haffæris, búnaðar og réttinda áhafna. Einnig séu skipsskjöl, búnaður, lögskráning, atvinnuréttindi yfirmanna, veiðarfæri og afli skoðaður.
Til samanburðar megi nefna að á árinu 2010 hafi varðskip Landhelgisgæslunnar farið til skyndiskoðana um borð í 325 skip og báta innan íslensku efnahagslögsögunnar. Þá hafi athugasemdir verið gerðar í 45,5% tilfella. Gerðar voru athugasemdir í 12% tilfella þegar afli var skoðaður en í u.þ.b. þriðjungi tilfella voru gerðar athugasemdir við búnað og réttindi um borð.