Eiginlegar aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins hefjast næstkomandi mánudag, 27. júní. Þá lýkur jafnframt formlega rýnivinnu sem hófst í nóvember á síðasta ári.
Rýnivinnan fólst í nákvæmri greiningu á löggjöf ESB sem Ísland þarf að gangast undir. Vinnunni var ætlað að varpa ljósi á það hversu reiðubúið landið er, í hverjum málaflokki fyrir sig, til að ganga í sambandið. Þegar hinar eiginlegu viðræður hefjast munu samninganefndir ESB og Íslands fara nákvæmlega í gegnum hvern samningskafla fyrir sig í aðildarsamningnum. Samningskaflarnir eru 33 talsins í jafnmörgum málaflokkum.
Viðhorf framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til inngöngu Íslands voru til umræðu á hádegisfundi sem fór fram í gær á vegum Rannsóknarseturs um smáríki og sendinefndar ESB á Íslandi. Alexandra Cas Granje, sviðsstjóri stækkunarstofu ESB, flutti þar erindi. Hún er yfirmaður þeirrar skrifstofu sem fer með aðildarviðræður ESB við Ísland, Króatíu, fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedóníu og Tyrkland.
Granje sagði að stjórnvöld á Íslandi mundu algjörlega ráða því hversu langan tíma inntökuferlið tæki. Ísland væri bílstjórinn og réði algjörlega hraðanum. Hún sagði jafnframt undangengna rýnivinnu sanna að Ísland væri í algjörum sérflokki miðað við önnur ríki sem nýlega hefðu gengið í Evrópusambandið þar sem Ísland uppfyllti þegar vel flest skilyrði sem sambandið setti ríkjum sem vildu inngöngu. Í máli Granje kom fram að nú væri ljóst að þrjá málaflokka væntanlegs aðildarsamnings þyrfti að skoða sérstaklega vel. Það væru landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál og umhverfismál. Það síðastnefnda vegna hvalveiða Íslendinga sem Granje segir á engan hátt samræmast stefnu ESB.
Þá voru enn fremur nokkur atriði sem Granje taldi geta hægt á inngönguferlinu. Til dæmis þyrfti Ísland að sjá til þess með fullnægjandi hætti að reglum ESB um fjármálamarkaði yrði framfylgt í landinu. Þá þyrfti sérstaklega að skoða fjármagnsflæði í ljósi gildandi gjaldeyrishafta. Og enn kom Icesave til umræðu. Mögulega þyrfti farsæll endir að koma til á þeirri langþreyttu deilu milli Íslendinga, Breta og Hollendinga. Loks gætu milliríkjadeilur um makrílveiðar haft einhver áhrif.
Á Íslandi stæði lýðræði og jafnrétti traustum fótum, hér væri virt réttarríki og tiltölulega lítil spilling.
En þá stendur eftir spurningin: Ef lífskjör eru svona góð á Íslandi af hverju ættum við þá að ganga í Evrópusambandið? Granje fullyrðir að með inngöngu í Evrópusambandið muni Ísland öðlast sterkari rödd innan alþjóðasamfélagsins auk þess að taka beinan þátt í ákvarðanatöku innan sambandsins. Þá muni upptaka evru styrkja efnahag landsins.
Granje segir framkvæmdastjórn ESB almennt mjög jákvæða í garð inngöngu Íslands í sambandið. Ekki voru allir jafn sáttir á fundinum en við upphaf fyrirlesturs Granje ruddist æstur mótmælandi inn og hrópaði ókvæðisorð um hugsanlega inngöngu Íslands Í ESB.