„Við erum auðvitað bara mjög ánægð með þessa útkomu. Þetta sýnir einfaldlega að stórum meirihluta þjóðarinnar er misboðið,“ segir Pétur J. Eiríksson, einn af aðstandendum vefsíðunnar Málsvörn.is sem opnuð var á dögunum til stuðnings Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, vegna ákæru á hendur honum fyrir Landsdómi.
Í dag voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar MMR þar sem kom fram að 65,7% aðspurðra væru andvígir ákærunni á hendur Geir vegna framgöngu hans sem forsætisráðherra í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Þar af sögðust 48,3% vera mjög andvíg ákærunni.
„Maður er bara hissa á því að allir þeir lögfræðingar sem vinna að þessari ákæru, að enginn í þeirra röðum hafi áttað sig á því að keisarinn er í engum fötum og sagt hingað og ekki lengra. Eða þeir stjórnmálamenn sem greiddu atkvæði með þessu. Viðurkenna bara að þetta hafi verið rangt og mistök,“ segir Pétur.