Mjólk hækkar í verði

Mjólk
Mjólk mbl.is/ÞÖK

Verðlags­nefnd búvara hef­ur ákveðið að hækka heild­sölu­verð á mjólk og mjólk­ur­vör­um um 4,25% þann 1. júlí. Smjör hækk­ar enn meira eða um 6,7% og mjólk­ur­duft til iðnaðar um 6%.

Frá sama tíma hækk­ar afurðastöðvaverð til bænda um 3,25 krón­ur á lítra mjólk­ur, fer úr 74,38 krón­um í 77,63 krón­ur eða um 4,4%. Þá hækk­ar vinnslu- og dreif­ing­ar­kostnaður mjólk­ur um liðlega 4,1%.

Seg­ir í skýr­ingu frá verðlags­nefnd búvara að ástæður þess­ara verðbreyt­inga eru launa­breyt­ing­ar og hækk­un á aðföng­um við búrekst­ur.

Í kjara­samn­ing­um sem skrifað var und­ir í síðasta mánuði er kveðið á um 4,25% hækk­un launa frá 1. júní sl.

Verð á mjólk og mjólkuraf­urðum hækkaði um 2,25% að meðaltali þann 1. fe­brú­ar sl. Frá sama tíma hækkaði afurðastöðvaverð til bænda um 3,25 krón­ur lítr­ann, úr 71,13 krón­um í 74,38 krón­ur eða um 4,56%. Verðlags­nefnd­in sagði þegar til­kynnt var um þetta að ástæður þess­ara verðhækk­ana séu hækk­an­ir á breyti­leg­um kostnaði við búrekst­ur.  

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert