Álftanes, Reykjanesbær og fleiri sveitarfélög með eignaleigusamninga við Eignarhaldsfélagið Fasteign, munu að öllum líkindum taka aftur yfir að öllu leyti rekstur og viðhald viðkomandi fasteigna, á borð við sundlaugar og íþróttamannvirki. Líklega gerist þetta með haustinu.
Aðeins einn starfsmaður er nú hjá Fasteign, fjármálastjórinn, en þar að auki hefur þjónusta verið keypt af fasteignafélaginu Klasa, svo starfsmaður þess mun sjá um framkvæmdastjórn. Aðrir starfsmenn eignarhaldsfélagsins hafa hætt störfum.
Að sögn Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ og stjórnarformanns Fasteignar, gengur meginhugmyndin, sem kynnt var á fundinum, út á að félagið haldi utan um greiðslur til lánardrottna, til bankanna, en sveitarfélögin taki alfarið yfir viðhald og rekstur fasteignanna. Hingað til hefur það að stórum hluta til hvílt á Fasteign. Þannig er verið að létta á ýmsum erfiðum þáttum í rekstri félagsins, en vitanlega skiptir miklu máli í þessu samhengi að lánardrottnarnir, ekki síst Íslandsbanki, munu þurfa að afskrifa talsvert af skuldum í þessu ferli.
Árni segir að meiri kynningar sé þörf á þessari leið hjá sveitarfélögunum sem hlut eiga að máli, en að reiknað sé með að niðurstaða um þetta muni liggja fyrir nú á haustmánuðum.