Álögur á eldsneyti lækka ekki

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, segir hækkandi húsnæðisverð auka á verðbólguna og vonar að húsnæðisverð sveiflist ekki of hratt upp á við.  Hann telur alltaf ástæðu til að hafa áhyggjur af víxlhækkunum launa og verðlags en óttast ekki áhrif boðaðra verðhækkana á mjólkurvörum. Þetta kemur fram á Vísi.

„Auðvitað höfum við alltaf áhyggjur og við höfum áhyggjur af því að verðbólgan hefur aðeins þokast upp á við. En þetta eitt og sér vegur nú ekki þungt í því. Hér er væntanlega um að ræða einhverja uppsafnaða þörf og hér er um verðlagsákvörðun að ræða, sem eru orðnar fátíðar. Síðan er spurning hversu lengi þessi verðlagning endist inn í framtíðina," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Steingrímur telur ekki rétt að lækka álögur á eldsneyti. „Nei, nú er það þannig að bensínverð er með því lægsta sem sem fyrirfinnst  í Evrópu hér á Íslandi. Það er mun lægra en á hinum Norðurlöndunum. Það kostar frá 15 upp í 50 til 60 krónum meira bensínlitrinn hjá frændum okkar á hinum Norðurlöndunum. Skatthlutfallið er lægra hér en á hinum Norðurlöndunum. Við erum undir helmingi af útsöluverðinu. Það helgast af því af því að bensín- og olíugjöld eru föst í krónutölu," segir fjármálaráðherra, á fréttavefnum Vísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert