„Besti flokkurinn á alltaf að vera á tánum, tilbúinn að líta inná við, tilbúinn að viðurkenna misgjörðir og mikilvægt er að hann sýni æðruleysi og auðmýkt í sínum störfum,“ segir í ályktun sem innri, sjálfs- og endurskoðunarnefnd Besta flokksins hefur sent frá sér.
Segir á ályktunin hafi verið samþykkt að loknum fundi í gærkvöldi.
„Þá verður að segjast að stundum líður Besta flokknum eins og foreldri sem var að fá unglinginn sinn heim eftir langa dvöl hjá ömmu og afa. Þótt amma og afi séu ágætis fólk hafa þau leyft unglingnum að ráða dálítið ferðinni og lítið verið um boð og bönn. Á eftir þannig dvöl tekur því við tímabil þar sem foreldrið þarf að setja skorður og taka óvinsælar ákvarðanir.
En það er allt í lagi, enda veit ábyrgt foreldri að uppeldið snýst ekki bara um vinsældir.
Besti flokkurinn vill að fólk sé glatt og kærleiksríkt við hvort annað. Besti flokkurinn er enn að læra og verður það vonandi alltaf. Batnandi flokkum er best að lifa.“
Í nýrri skoðanakönnun Capacent nýtur Besti flokkurinn 17,1% fylgis. Flokkurinn hlaut hins vegar 35% fylgi í síðustu borgarstjórnarkosningum.