Fasteignamat hækkar um 6,8%

mbl.is/ÞÖK

Heildarmat fasteigna á landinu öllu hækkar um 6,8% í nýju fasteignamati fyrir árið 2012 og verður tæplega 4.400 milljarðar króna. Heildarmat íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hækkar um 9% og verður tæplega 2.900 milljarðar króna.

Breyting á fasteignamatinu frá núgildandi mati er mismikil eftir landssvæðum og jafnvel eftir hverfum innan sama landssvæðis.

Mat íbúðarhúsnæðis 2012 byggist á yfir 34.000 kaupsamningum frá júlí 2005 til apríl 2011. Fasteignamarkaðurinn er greinilega að taka við sér á ný eftir hrun. Til marks um það er að um 800 kaupsamningar voru gerðir á fyrsta ársfjórðungi 2009, um 1.000 á fyrsta ársfjórðungi 2010 og um 1.300 á fyrsta ársfjórðungi 2011. Líflegri fasteignamarkaður styrkir grunn fasteignamatsins.

Alls eru skráðar tæplega 125.000 íbúðir á Íslandi. Samanlagt fasteignamat þeirra er um 2.600 milljarðar króna en verður um 2.850 milljarðar króna samkvæmt mati ársins 2012. Hækkar með öðrum orðum um 9%. Fasteignamat á um 120.000 íbúðum hækkar (96% íbúðarhúsnæðis í landinu), mat á um 4.500 íbúðum lækkar en mat á um 550 íbúðum er óbreytt.

Hækkar mest á Norðurlandi vestra en minnst á Austurlandi

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 6,3%. Mesta hækkun á landinu er á Norðurlandi vestra (11,9%) en minnsta hækkunin er á Austurlandi (2,8%). Hækkun fasteignamats í öðrum landshlutum er sem hér segir: Suðurnes (4,3%), Vesturland (9,6%), Vestfirðir (9,9%), Norðurland eystra (9,4%) og Suðurland (9,9%).

Í fréttatilkynningu er eru nefnd nokkur dæmi um breytingar á fasteignamati. Fasteignaverð íbúða í grónum hverfum Reykjavíkur hækkar að jafnaði umfram meðaltal, mest í Vesturbænum vestan Bræðraborgarstígs (14,9%) og í Hlíðum (9,4%). Mat fasteigna hækkar minna en sem nemur meðaltali í hverfum þar sem mikið var af hálfbyggðum húsum og óseldum eignum eftir hrunið 2008. Það á til dæmis við um Úlfarsárdal (4,5%) og Kórahverfið í Kópavogi (4,2%). Í Akrahverfi í Garðabæ lækkar fasteignamatið lítillega eða um 0,2%.

Hér geta eigendur fasteigna skoðað mat fyrir húsnæði sitt.

Fasteignamat íbúðarhúsa á jörðum og annars íbúðarhúsnæðis í dreifbýli breytist yfirleitt mun meira en mat á öðrum eignum árið 2012. Það stafar meðal annars af því að aðferðir við mat á þessum eignum voru verulega endurbættar og þar með má segja að matsaðferðir fyrir allt íbúðarhúsnæði á landinu hafi nú verið endurskoðaðar í samræmi við lögin sem tóku gildi 2009. Meðal annars vegna þessa er hlutfallsleg hækkun fasteignamats íbúðarhúsnæðis mun meiri í tilteknum sveitarfélögum í dreifbýli en í öðrum. Dæmi um þetta er Helgafellssveit (72,6%), Ásahreppur (47%), Húnavatnshreppur (28,6%) og Súðavíkurhreppur (21,1%).

Í fréttatilkynningu kemur fram að lög kveða á um að fasteignamat á hverjum tíma skuli endurspegla markaðsverðmæti (staðgreiðsluverð) fasteignar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka